Ég er svosem ekkert að auglýsa líf mitt hérna eins og margir halda að bloggarar geri. Vissulega læt ég vita af mér af og til og leyfi þeim sem vilja skyggnast aðeins inn í hugarfylgsni mitt og mitt fjölbreytilega, spennandi og bráðskemmtilega líf. Ég er óþolinmóð, fljótfær og seinheppin. That's it for now!

miðvikudagur, júní 07, 2006

Kæra systir og fröken tilkynning

Það er þriðjudagskvöld, 06.06.06, og ég er ekki að plata. Ég ítreka það að ég er ekki að plata, vegna þess að það bólaði víst á einhverjum misskilningi varðandi dagsetningu á föstudagspistlinum mínum síðasta. Málið var að ég skrifaði jú téðan pistil á föstudegi, og tæknilega gekk allt vel þangað til ég þurfti að birta textann. www.blogger.com var ekki beint að gúddera tilætlun mína svo pistillinn beið fram á mánudaginn.
[Ritstjóri afsakar þetta leiðinda atvik og vonar innilega að almenningur hafi ekki hlotið varanlegan skaða af því.]

Talandi um föstudagspistla.
Síðastliðinn föstudag var ég fjarri mannabyggðum og skellti mér í fermingu á Húsabakka, sem er rétt hjá Húsavík.
Kem með síðbúinn pistil á morgun eða þegar ég nenni..
Já skammið mig bara.

Kær kveðja

mánudagur, maí 29, 2006

Föstudagspistill

Þá er komið að löngum föstudagspistli. Klukkan er að verða hálf ellefu að kvöldi til. Ýmiskonar hljóð óma frá sjónvarpinu, tíkin eltir kettlinginn á röndum, og dagurinn skríður brátt í stuttan dvala.
Föstudagspistillinn er nýr á nálinni hérna hjá mér, en honum ætla ég að hlúa vel að næstu vikur, og færa ykkur eirðarlausu lesendum eitthvað að snuddast í.
Þetta er fyrsti föstudagspistillinn.

Ég myndi seint segja að ég væri mikill sjónvarpsaðdáandi. Einhvernveginn hef ég náð í gegnum tíðina að koma alveg af fjöllum þegar fólk byrjar að tala um hinn og þennann sjónvarpsþátt. Hjá mörgum er þessu öðruvísi háttað. Fólk kemur heim úr vinnu, flykkist fyrir framan kassann og glápir þangað til að sofnar og byrjar nýjan dag, fullt eftirvæntingar að koma heim úr vinnunni og setjast á ný við sjónvarpið inní stofu. Jú, ég fylgist með fréttum ef ég er heima, eða næ kannski tíu-fréttunum með naumindum. Já, þetta líf var bara ansi huggulegt.
En sjónvarpsleysið síðastliðnar 7 vikur hefur haft veruleg áhrif á mig. Í byrjun apríl fauk loftnetið af húsinu, eins og það lagði sig. Jú, vissulega get ég tekið upp jákvæðnina, og þakkað fyrir að híbýli mitt fauk ekki um leið og loftnetið.
En afleiðingar óveðursins voru engu að síður dramatískar.
Ekkert sjónvarp. Engar fréttir. Engar auglýsingar. Engin útsending.
Ég er mikið fyrir miðla. Ég er mikil miðla-manneskja ef svo má að orði komast, og vil nota sem flesta miðla við upplýsingaöflun, fróðleik og afþreyingu. Ég er ekki svo heppin að fá Fréttablaðið daglega inn um lúguna eins og allmargir, því blaðberinn í mínu hverfi er ekki alveg sá vinnuglaðasti.
Dagarnir liðu, og mér var farið að líða eitthvað undarlega. Ég gat ekki sett fingur á hvað það var, en það vantaði eitthvað. Svo rann það upp fyrir mér. Bara það að geta kveikt á sjónvarpinu og séð útsendingu frá umheiminum, var svo eðlilegt fyrir mér, þó svo sjónvarpið ætti ekki hug minn allan. En það var farið. Enn liðu dagarnir. Ekkert sjónvarp. Og ég var farin að finna fyrir hrottalegum ólgum innra með mér, sem ég ekki áður þekkti.
Þessar fyrrnefndu ólgur lýstu sér einhvernveginn svona:

"Verð að sjá útsendingu"...
"Verð að sjá fréttir"...
"Verð að sjá stillimyndina"...
"VERÐ AÐ SJÁ EITTHVAÐ!!!"...

Ég var orðin örvæntingarfull, og löngu orðin leið á að horfa á fréttirnar á netinu. Ég gægðist af og til út um stofugluggann, og vonaði að loftnetið lægi ekki ennþá á stéttinni. En það færðist ekkert, og liggur þar enn þann dag í dag.
Þegar við sáum fram á að leigusalinn (sem býr fyrir ofan okkur) var ekkert á leiðinni að redda loftnetsmálunum, ákváðum við að fá ADSL sjónvarpið frá Símanum. Ég vippaði mér á netið á þessum erfiðu dögum og sótti um draslið. Jújú, það virkar fínt, völdum pakka sem heitir Blanda. Blanda er svona... já, það segir sig eiginlega sjálft. En fyrir þá sem eru ekki eins fróðir og ég, þá er Blöndupakkinn samansafn af hinum og þessum tegundum af stöðvum, íþróttir, fréttir, teiknimyndir, vísindi, bíómyndir og fleira.
Fyrstu dagana lá ég yfir NFS fréttastöðinni, og saug fréttir í mig eins og skorpinn svampur í Sahara á barmi taugaáfalls. (Já reynið að ímynda ykkur þetta!) Eftir svoldinn tíma var ég orðin góð. Fékk mína fréttaskammta reglulega og lífið byrjaði að ganga sinn vanagang. Ég er semsagt farin að halda upp á nokkra þætti, en ég horfi aðallega á Animal Planet, það klikkar aldrei!
Ég veit ekki hvað kom til, en á miðvikudagskvöldið síðastliðið skipti ég yfir á Skjá Einn. Þar var Ungfrú Ísland keppnin að byrja, og með tilhlökkun í hjarta ákvað ég að horfa á það, einungis í þeirru veiku von að sjá eitthvað skemmtilegt gerast. Eftir fimmtán mínútur komst ég að þeirru niðurstöðu, mér til mikillar mæðu, að ekkert krassandi myndi gerast í keppninni í ár. Engin stelpa var á leiðinni að brjóta nögl,hrasa, detta, froðufella eða deyja. Animal Planet freistaði mín, og ég skipti yfir. Að lokum sofnaði ég í sófanum, drattaðist svo upp í rúm, og vissi ekki af mér fyrr en ég vaknaði morguninn eftir. Fimmtudagurinn fór allur í eitthvað stúss, og ég var fjarri öllum miðlum, og rakst því hvergi á nýbakaða ungfrú Ísland. Kom dauðþreytt heim um kvöldið, lagðist á koddann og steinsofnaði.
Dagurinn í dag rann upp. Unaðsleg maísólin skein á annars illa mygluðu andliti mínu, með stýrurnar í augunum náði ég að hella upp á kaffi, og fletta Fréttablaðinu sem datt inn um lúguna, frekar fyrir dularfulla tilviljun en óstöðvandi eldmóð blaðberans. Og hvað sé ég? Alveg var þetta týpískt. Á síðu 48 í Fréttablaðinu stóð bara ein fyrirsögn uppúr. “Unnur slapp við meiðsl eftir fallið.”
Frábært. Æðislegt. Ég missti af öllu fokking sjóinu. Missti af því sem ég vona að gerist hvert einasta ár, í hverri einustu keppni. Og akkúrat þegar ég er ekki að horfa, þá gerist það. Engin önnur en Ungfrú Heimur hrapar í gólfið með tilheyrandi gólum, andköfum og háklassa glamúr.
Þetta ómetanlega og ógleymanlega atvik var jú fest á filmu, og er aðgengilegt á www.b2.is. Ég reyndi að drekkja vonbrigðum mínum að hafa misst af þessu með því að horfa aftur og aftur á myndbandið á netinu. En það bara er ekki það sama og sjá þetta í beinni. Oh ég fæ gæsahúð við tilhugsunina.
Í blaðinu eru 6 myndir sem sýna óhappið. Undir hverri mynd var smá klausa sem leiddi mig í gegn um fallið. "Varasamt gólf" ... ahh... "Skrikar fótur".. mmm.. "Skall í gólfið" .. ójá! "Slasaðist á hendi" ... "Til aðstoðar"... "Sönn hetja".
Það besta fannst mér þó að lesa það sem Elín Gestsdóttir, framkvæmdastjóri Ungfrú Ísland sagði um þetta:
"Hún stóð sig eins og sannkölluð hetja"..[bla bla bla] (Og hér kemur það): "Unnur var með Ungfrú Heimur-kórónuna á höfðinu sem er mjög verðmæt en sem betur fer kom ekkert fyrir hana".

Já, það er eins gott að passa upp á demantagrenið á hausnum á sér þegar maður gengur á meters háum hælum á nýbónuðu gólfi í beinni útsendingu. Aðstandendur flykktust að greyið Unni, sem lá á gólfinu eins og haugur, kórónan því næst rifin úr hári Unnar Birnu, og veitt viðeigandi aðhlynning. Óstaðfestar fréttir herma að Unnur Birna hafi þurft að fara á puttanum upp á Slysó, á ísköldum táslunum, á meðan kórónunni var í blíðum höndum Elínar Gestsdóttur.

Eða þannig sé ég þetta fyrir mér allavega.

Góða nótt!

laugardagur, maí 20, 2006

Módel óskast

Mig vantar dökkt/þeldökkt módel til að farða í förðunarskólanum, og þar sem ég þekki ekki eina slíka óska ég eftir samböndum ykkar kæru lesendur! Lumar ekki einhver á dökkri/þeldökkri vinkonu til að senda til mín í förðun?

Kommon krakkar, hjálpið mér hérna!

laugardagur, maí 13, 2006

Prufukeyrsla á mynd

Virkar þetta?

föstudagur, maí 12, 2006

ATHUGIÐ!! ATHUGIÐ!!

Já.
Biðinni er lokið.Það er komið að því.
Fyrsti KARLSJÚKDÓMALÆKNIRINN hefur hafið störf, í Grindavík.
*** Og það er engin önnur en ÉG! ***

Á stofunni minni, nánar tiltekið á Víkurbraut 62, er mikið tekið á ýmiskonar sjúkdómum karlpeningsins.
Ég hef stundað langt og strangt nám erlendis, starfaði á sjúkrahúsi í Boston árin 2002-2006, og öðlaðist þar mikla og nauðsynlega reynslu í mínu fagi.
Ég er fyrsti og eini karlsjúkdómalæknirinn á landinu, og fæ margar fyrirspurnir á dag varðandi starfsemi mína.
Helstu og algengustu sjúkdómarnir, eins og flestar heilvita konur vita, eru:

-Vandamál við að pissa *** Í *** klósettskálina.
-Vandamál við að *** sturta niður *** úr klósettskálinni.
-Erfiðleikar við að *** loka *** klósettskálinni.

Einnig er ég sérhæfð í alvarlegri vandamálum, til að nefna:
-Snúa klósettrúllunni rétt

Og fleira í þeim dúr.

Tímapantanir fyrsta karlsjúkdómalæknis Íslands eru í síma 552-7859

Tímapantanir í förðun hjá besta förðunarfræðingi Suðurnesja eru í sama símanúmer.

Skiptiborð svarar öllum símtölum í þeirri röð sem þau berast.Góðar stundir.


Kolbrún Jónsdóttir
Viðurkenndur förðunarfræðingur og karlsjúkdómalæknir
Grindavík.

kojo86@gmail.com

fimmtudagur, maí 11, 2006

Rifka

Jæja ég er flutt aftur hingað. Þetta blog.is var ekki alveg að gera sig, bara alls ekki. Ætla bara að halda mig við það sem ég þekki, þetter fínt.

Já það eru svo sannarlega fréttir í mínu lífi kæru lesendur.
Skráði mig í förðunarskóla Rifka (hét áður No Name) (www.rifka.is)
Eftir 14 vikur frá og með deginum í dag mun ég verða útskrifaður og viðurkenndur förðunarfræðingur með diploskjal til að sanna það :)
Þá stefni ég að því að koma mér upp lítilli kósí aðstöðu hér í Grindavík til að anna allri þeirri eftirspurn sem mér hefur borist síðan ég flutti hingað.

Skil þessa eftirspurn svosem alveg mjög vel, ég er snillingur.

Fylgist með!